Í huggulegri lítilli íbúð í Keflavík hafa þau Guðrún Mjöll Stefánsdóttir og Sindri Þrastarson komið sér vel fyrir. Íbúðin er rúmgóð og björt þrátt fyrir að vera ekki nema 65 fm. að stærð. Grár litur nýtur sín vel á veggjunum í bland við afar smekklega húsmuni.

Þau Guðrún Mjöll og Sindri fóru að huga að því að kaupa sér íbúð að loknu námi en fram að því höfðu þau verið á leigumarkaði. Þau fundu litla íbúð í Keflavík sem var frekar illa farin og þarfnaðist algjörra endurbóta. Þau keyptu íbúðina í byrjun árs 2016 og hófust strax handa við að taka hana í gegn. Það þurfti gjörsamlega að breyta öllu. Gólfefni, loft, veggir, gluggar og innréttingar þurftu frá að víkja og nýtt að koma inn í staðinn.

„Við vorum spennt fyrir þessu verkefni. Það er gaman að fá að gera sitt eigið,“ segir Sindri og Guðrún Mjöll bætir við að það hafi lengi verið draumur hjá henni að hanna íbúð eftir eigin höfði.

Eins og oft vill verða þá var fjölskyldan tilbúin að rétta fram hjálparhönd en feður þeirra beggja voru mjög duglegir að aðstoða. „Þeir mættu hérna bara óumbeðnir alltaf eftir vinnu nánast og allar helgar, liggur við í hádegismatnum,“ segir Guðrún Mjöll sem starfar sem geislafræðingur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.
 

Þau segjast bæði hafa lært helling af þessu ferli en Sindri er meistaranemi í byggingarverkfræði og því verið talsvert í kringum framkvæmdir. Þau eru þó sammála um það að hugmyndavinna og undirbúningur hafi líklega tekið mestan toll í ferlinu. Bestu hugmyndirnar fæðist jafnvel á koddanum rétt fyrir svefn. „Það voru ófáar stundirnar sem við eyddum á eldhúsgólfinu bara í að teikna eldhúsinnréttinguna upp,“ segir Sindri.

Þeim þykir báðum eldhúsið hafa tekist sérstaklega vel til og eyða þar mörgum stundum við barborðið. Þar borða þau oftast morgunmat og dreypa á morgunkaffinu. „Þar er mikið borðpláss auk þess sem við náðum að koma fyrir uppþvotta- og þvottavél,“ en áður voru tvö rými þar sem nú er eldhúsið, annað hugsað sem þvottahús.

Þau segjast alveg vera tilbúin að fara í svona verkefni aftur þrátt fyrir að það hafi reynt mikið á. „Það var gaman að fara í gegnum þetta og upplifa sjálfur. Það komu alveg tímar þar sem maður hugsaði. „Hvað erum við búin að koma okkur út í?“ Þegar maður sá ekki fyrir endann á þessu,“ segir Sindri.

Íbúðin var nánast fokheld eftir að öllu hafði verið sópað út. Skipta þurfti um alla glugga í íbúðinni. Opið á milli eldhúss og stofu var stækkað talsvert en þar var áður venjulegt hurðargat. Baðkar var á baðherberginu og bleikt klósett sem fékk að fjúka. Loftið yfir allri stofunni var mikið hraunað eins og tíðkaðist mikið áður fyrr. Tekin var sú ákvörðun að taka loftið aðeins niður og setja gifs á öll loftin. Þannig fengu þau frelsi til þess að setja mikla og góða lýsingu en vel staðsett led ljós njóta sín vel í íbúðinni.
 

SIGILT OG FLOTT
Kollurinn er sígildur og fallegur en þau skötuhjú eru áhugasöm um fallega húsmuni.

MIKIL VINNA EN VEL ÞESS VIRÐI
Þau Guðrún Mjöll og Sindri una sér vel í litlu íbúðinni sinni sem þau gerðu upp frá a til ö. Þau eru sammála um að hugmyndavinna og undirbúningur hafi líklega tekið mestan toll í ferlinu.

 

Þurfti að hafa fyrir gráa litnum

 

Grái liturinn á veggjunum er sérstaklega smekklegur. Guðrún Mjöll var mjög hrifin af litnum en þurfti talsvert að hafa fyrir því að sannfæra aðra um að hann væri rétt val. „Það tók alveg sinn tíma,“ segir Sindri og þau hlæja bæði. „Hún stóð hins vegar föst á þessu og við erum mjög ánægð með litinn.“ Guðrún Mjöll ákvað að mála einn vegginn á ganginum með sérstakri kalkmálningu og er hún mjög sátt með útkomuna. Hún segir gráa litinn koma vel út með innbúinu og hurðum sem er að stórum hluta til hvítt að lit. „Liturinn á veggjunum er ljósgrár og er númer 1500. Það tók nokkrar ferðir í Flugger og nokkrar prufur til þess að finna ljósgráa litinn sem ég hafði í huga, en þeir voru farnir að þekkja mig ansi vel þar og veittu alltaf jafn frábæra þjónustu. Ég fékk síðan kalkmálninguna í Sérefnum en ég vildi hafa hana örlítið dekkri, en hann er númer 2074.“

KALKAÐUR VEGGUR
Guðrún Mjöll ákvað að mála einn vegginn á ganginum með sérstakri kalkmálningu og er hún mjög sátt með útkomuna enda glæsilegt eins og sjá má.