Spennandi tímar eru framundan hjá Ragnheiði Söru Sigmundsdóttur. Hún heldur í dag til Bandaríkjanna þar sem hún mun búa næsta hálfa árið og æfa fyrir heimsleikana í crossfit. Líf Söru hefur tekið stakkaskiptum síðustu ár. Hún hefur tvisvar hafnað í þriðja sæti á heimsleikunum. Hún hefur stöðugt hugsað um heimsleikana 2015 þar sem sigurinn rann úr greipum hennar á síðustu þraut. Hún hefur leitað aðstoðar sálfræðings og vinnur nú stöðugt í andlegu hliðinni. Sara segist vera að læra að tapa en vonast þó til að vinna heimsleikana áður en ferlinum líkur.

Sara mun flytjast til Kaliforníu þar sem ættingjar hennar búa. Hún mun því flytjast frá Evrópuriðlinum yfir í þann í Kaliforníu. „Ég er að yfirgefa kuldann. Þetta er búið að vera nettur draumur síðan ég byrjaði að æfa crossfit. Mig langaði alltaf út í skóla líka,“ segir hún en Sara mun þar með æfa í hitanum sem hún er vön að keppa í.

„Ég myndi segja að Evrópuriðillinn væri lang erfiðastur. Þar eru rosalega margar fimleikastelpur, en fimleikar eru minn helsti veikleiki. Það er því aðeins auðveldara að vera í Bandaríkjunum.“ Þeir eru orðnir fáir veikleikarnir hjá Söru sem var þó ómótuð sem íþróttamaður þegar hún byrjaði í crossfit.

„Ég var lítil og löt og fann mig ekki í neinum íþróttum. Ég fór því að hreyfa mig til þess að getað eignast kærasta eins og besta vinkona mín.“ Sara komst fljótt að því að hún var þarna á heimavelli. Hún var góð í einhverri íþrótt. „Þetta er svo ung íþrótt og hún er alltaf að breytast. Þetta verður erfiðara og meira krefjandi með hverju árinu. Þetta er svo líka öðruvísi með það að gera að við fáum aldrei að vita hvaða æfingar verða á heimsleikunum. Þetta er erfitt andlega og líkamlega. Það er skemmtilegt við crossfit að það er alltaf verið að koma manni á óvart.“ Andlegi hlutinn hefur vafist fyrir Söru og vinnur hún statt og stöðugt í því að styrkja sig á því sviði.
 

Hrundi gjörsamlega árið 2015

„Það sem ég hef klikkað á síðustu tvö árin er að að toppa á röngum tíma. Ég lagt áherslu á að vinna allt sem ég tek þátt í. Ég er því að fara með því hugarfari að komast á heimsleikana og toppa mig þar.“

Sara hefur verið í kjörstöðu til þess að klára heimsleikana en allt fór úrskeiðis á síðasta degi árið 2015. „Það klikkaði bara eitthvað í hausnum. Ég eyddi allri orkunni minni í að klifra upp þennan vegg. Ég fæ gat á hausinn á meðan og verð mjög pirruð. Ég vissi svo að næsta æfing væri mín, handstöðulyftur, ég klikka svo á fyrstu þremur og þá gafst ég bara upp. Allt í einu hættir þú bara að trúa því að þú getir þetta. Ég fór að brjóta mig niður á meðan ég var að gera æfinguna. Ég man að ég var að hugsa á meðan, „af hverju ættir þú að vinna fyrstu heimsleikana sem þú keppir á? Þetta var alltof stór draumur. Þetta skiptir ekki máli lengur, þú ert búin að tapa þessu.“ Þetta var ég að hugsa og hef þurft að vinna mikið í þessu,“ segir Sara sem meðal annars hefur leitað sér aðstoðar íþróttasálfræðings. „Ég er búin að gera alls konar andlegar æfingar, sem er mjög erfitt. Það er ekkert mál að æfa en að æfa andlegu hliða en svo miklu erfiðara. Andlega hliðin stjórnar líkamlega hlutanum þannig að hún er líklega 80% af íþróttinni.“ Því skilur oft á milli þeirra bestu, hver er sterkastur í höfðinu. „Það er þannig. Það verður ekki vandamál núna í ár.“ Sara er í leit að nýjum þjálfara og leggur hún áherslu á að sá leggi alla áherslu á andlegu hliðina.

„Erfiðasti tími lífs míns“

Undirbúningur getur þannig verið strembinn fyrir stór mót og tekið á taugarnar. „Ég fann það vikurnar fyrir síðustu heimsleika að ég var bara dauf. Mig langaði eiginlega ekki að tala við neinn, missti matarlyst og var ógeðslega stressuð. Eftir 2015 viðurkenndi ég ekki hversu mikil áhrif þetta hafði á mig andlega. Ég fann það svo bara árið 2016 hvað það hafði ennþá mikil áhrif á mig að hafa klúðrað þessu. Ég fór því að hugsa bara um það þegar ég var að fara að keppa, í stað þess að einbeita mér að því sem ég var að gera núna var ég að hugsa til baka. Það var eiginlega erfiðasti tími í lífi mínu þessir tveir dagar fyrir mót. Tíminn var bara stopp, endalaus bið bara.“

Þegar keppendur eru ekki brosandi í myndavélar eða að framkvæma æfingar sem eru nánast mannlega ómögulegar, þá er bara hver í sínu horni að reyna að halda einbeitingu að sögn Söru. Hún hlustar þá á tónlist og reynir að hugsa bara ekki um neitt. Hún reyndi að fara bara í nudd og slaka á en það tókst ekki alveg. „Ég fór að skoða stigatöfluna og hugsa um þau mistök sem ég hafði gert. Ég er hins vegar búin að læra mikið af þessu og í ár mun ég hugsa um eina grein í einu í stað þess að hugsa um keppnina. Ég mun taka fimm mínútur til þess að rakka mig niður eftir grein og svo er það bara áfram gakk.“

Erfitt að sætta sig við líkamsvöxtinn

 

Það er mikið rætt um útlit keppenda í crossfit og Sara viðurkennir fúslega að hún hafi verið lengi að sætta sig við eigin líkama. Enda var ætlunin ekki að verða mössuð. „Munurinn á crossfit og til dæmis vaxtarrækt er sá að mig langaði aldrei að verða svona mössuð. Því miður koma vöðvarnir ósjálfrátt ef ég geri allar þessar æfingar. Það er eiginlega mesta sjokkið við það að vera stelpa í crossfit að ég bjóst aldrei við því að geta orðið svona ótrúlega mössuð.“

Er það eitthvað sem þú þurftir að sætta þig við?

„Já ég get alveg viðurkennt það. Það var erfitt að vera með vinkonum mínum sem voru ekki að lyfta og þurfa allt í einu að vera í „large“ jakka. Sem stelpa þá pælir maður mikið í þessu og þarf alveg að taka þetta í sátt. Fólk getur alveg komið með særandi komment en það er yfirleitt ekki að meina illa.“

„Ímynd mín á kvenmönnum hefir breyst helling eftir að ég byrjaði í crossfit. Mér fannst flott að vera ekki með neina vöðva og vera bara grönn. Núna finnst mér ótrúlega flott að stelpur séu með vöðva og þegar ég veit að konur eru hraustar. Það er meira heillandi en útlitið sjálft.

Ertu búin að sætta þig við eigin líkama? „Ég er eiginlega þakklát fyrir það hvernig líkami minn er, annars væri ég ekki komin svona langt.“

Hefur lært að tapa

Sara er með mikið keppnisskap og veit fátt verra en að þurfa að lúta í gras.

„Ég er að læra að tapa núna. Mér finnst mjög erfitt að tapa. Það fylgir því að vinna, það er að kunna að tapa líka. Ég hataði alltaf Conor McGregor þar til ég sá hann tapa í fyrsta skipti. Þá kunni ég að meta hversu góður íþróttamaður hann er. Hversu stór sálfræðilegi hlutinn er hjá honum. Ég er þannig að læra að tapa.“

Hún fer þannig með annað viðhorf á heimsleikana í ár. „Ég horfi á þessa heimsleika svolítið öðruvísi. Ég hef alltaf bara hugsað um að vinna og mætt á æfingar bara til þess að vinna heimsleikana. Nú hugsa ég að þetta sé fimm ára gluggi sem ég ætla að gefa mér. Ég er aldrei að njóta þess að æfa. Af hverju byrjaði ég að æfa crossfit? Af því að mér fannst það ógeðslega gaman. Það eru ekki titlarnir sem þú hugsar um eftir fimm ár, heldur ferðalagið sjálft. Ég þarf kannski að njóta mín betur á meðan ég get verið í þessu.“

Hvað þýðir það, fimm ára gluggi?

„Ég ætla að gefa mér fimm ár í svona miklar æfingar og heimsleikana. Ég ætla svo í skóla eftir það. Ég var í skóla að læra sálfræði en gafst eiginlega bara upp þar sem prófin voru alltaf á sama tíma og Evrópuleikarnir. Mig hefur alltaf langað til þess að vinna við að hjálpa fólki. Þar sem ég er ekki góð með blóð og þannig hluti þá ætla ég að hjálpa fólki með andlegu hliðina frekar.“

 

Tók 1000 „burpees“ og hlustaði á heimsleikana

Sara fer stundum óhefðbundnar leiðir í æfingum til þess að reyna á þolmörk líkama og huga. Eitt kvöldið ætlaði hún að leyfa sér að sukka aðeins. Hún ákvað því að taka aðeins meira á því en vanlega til þess að vinna sér inn fyrir súkkulaðinu. „Stundum dett ég í ham þar sem ég vil prófa hversu andlega sterk ég er. Hversu mikið get ég pínt sjálfa mig. Þá get ég hugsað um þetta þegar það kemur eitthvað upp á heimsleikunum. Ég ákvað því eitt kvöldið að taka þúsund burpees-æfingar. Ég kveikti á heimsleikunum 2015 og hlustaði á þá og gerði svo æfinguna. Ég fór eftir lokun upp í Sporthús. Ég held að ég hafi verið í klukkutíma og sjö mínútur. Þetta er þannig að ég náði að sigra neikvæðu röddina í hausnum í mér. Að ná að sigra hausinn er rosalega mikilvægt.“ Fyrir þá sem ekki þekkja burpees-æfinguna þá er hún alls ekki í uppáhaldi hjá crossfitturum og þykir mjög erfið.

Til marks um sigurvilja Söru þá æfði hún einu sinni með Sam Briggs, sem hefur unnið heimsleikana og er ein sú besta í heiminum. Þær stöllur tóku saman æfingu sem innihélt mikið af hlaupum þar sem Briggs hafði mun betur enda er hún sterk hlaupakona. Okkar kona var allt annað en sátt. Tók sig til og hljóp tíu kílómetra eftir að æfingunni lauk.

Sara um steranotkun

Telur þú að það sé lyfjanotkun í sportinu?

„Ég myndi segja að það væri frekar karlamegin heldur en hjá konunum. Ég get alveg viðurkennt það að áður en ég náði svona langt þá hugsaði ég alltaf að allar þessar stelpur væru pottþétt á sterum. Þú nærð ekkert þessum þyngdum án þeirra. Svo allt í einu fer ég að ná sömu þyngdum og þá er ég allt í einu búin að sanna fyrir sjálfri mér að þú þarft ekki stera til þess að ná langt. Mér finnst líka að ef þú notar stera í þessu sporti ertu þá ekki að velja þér auðveldu leiðina. Þar sem crossfit leggur mikla áherslu á að reyna á andlegu hliðina. Ef þú velur auðveldu leiðina þá held ég að þú komist aldrei á toppinn.“

Notar þú einhver lyf?

„Ég er rosalega náttúruleg manneskja og mér finnst mjög óþægilegt að taka inn duft og þannig. Ég tek inn prótein á meðan ég er að æfa og svo tek ég túrmerik og ómega 3 og d-vítamín á meðan ég er á Íslandi. Svo tek ég amino energy til þess að fá koffín þar sem ég drekk ekki kaffi.“ Sara segist borða í kringum 2500 kaloríur á dag. Hún segist borða kolvetnin á réttum tíma í kringum æfingar.
 

Með sex aðstoðarmanneskjur á setti hjá Nike

Sara er á góðum samningi hjá íþróttarisanum Nike. Hún er andlit fyrirtækisins í crossfitinu og fer reglulega til útlanda til þess að fara í myndatökur eða leika í auglýsingum. Nú á dögunum dvaldi hún í heila viku í Barcelona við tökur þar sem stjanað var við hana eins og kvikmyndastjörnu. „Það er þannig. Þetta var skrýtið í fyrsta skipti sem ég fór í myndatöku hjá Nike. Ég var með eina manneskju sem reimdi skóna mína. Tvær sáu um hárið á mér. Önnur manneskja sá um að buxurnar mínar væru aldrei krumpaðar. Fimmta manneskjan var að farða mig og sjötta manneskjan sá um að spreyja á mig gervi-svita. Þannig að ég var með sex manneskjur að elta mig um allt. Ég var með mitt eigið hjólhýsi. Ég gat valið hvaða mat sem ég vildi, því yrði bara reddað. Þetta var eiginlega óraunverulegt.“ Sara segir að ferli eins og í Barcelona geti tekið á og að vinnudagar séu langir. Hún sér því ekki fyrir sér að leggja módelstörf fyrir sig. „Ég gæti það aldrei, það er alveg erfitt líf,“ segir hún og hlær.

Sara er á samning hjá fimm frekar stórum fyrirtækjum og segist hún fá mikið af tilboðum.
„Mig langar bara ekki í fleiri tilboð. Um leið og þú ert með marga góða samninga þá þarft þú að gefa þér tíma í að fyrir þau fyrirtæki. Ég er á fimm samningum og það er meira en nóg.“

En hvað með peninga? Hversu gott hefur þú það?

„Ég hef það alveg ágætt núna. Það skiptir þó máli að ganga vel á mótum svo ég fái ákveðin laun. Samningapeningar eru ekki það miklir að þú getir sleppt því að keppa á mótum. Ég get þó einbeitt mér að æfingum og þarf ekki að vinna með. Launin eru þó ekki svo góð að ég geti farið og keypt mér nýtt hús og nýjan bíl.“ En sér hún fyrir sér að verða rík af crossfittinu?
„Mér finnst það alltaf vera bara bónus. Það er magnað að vera í svona formi og gera það sem ég elska. Að fá borgað fyrir það er eiginlega draumur. Eins og ég segi þá á ég fimm ár eftir, ég ætla svo að mennta mig og fá góða vinnu en ef ég fæ pening út úr þessum fimm árum þá er ég bara mjög sátt.“

Í skóla var Sara ekki að leggja sig fram þegar það kom að íþróttum. Núna er hún stanslaust að sanna sig fyrir fólki og koma sjálfri sér á óvart.

„Markmið mitt á fyrstu heimsleikunum var að sýna að þú þarft ekki að hafa verið íþróttamanneskja allt þitt líf til þess að ná langt í íþrótt. Ég vildi sanna það fyrir öllum. Ef þú spyrð einhvern sem var í íþróttum með mér þá var ég löt. Ef það var „píptest“ þá tók ég tvær ferðir og nennti svo ekki meira. Ég var aldrei þessi íþróttastelpa og ég held að það hafi komið flest öllum á óvart hvað ég hef náð langt. Það er bara með harðri vinnu og ákveðni. Ég myndi segja það að allir geti náð langt ef þeir einbeita sér að því.“

Er heppin með gen

 

Oft er talað um að fólk sé að upplagi náttúrulegt íþróttafólk. Í tilfelli Söru er það satt og hún segist vera heppin með foreldra. „Já ég myndi segja að ég sé mjög heppin með gen. Við öll systkinin er mjög sterk. Þau eru meira í námi á meðan ég er í íþróttum. Ef bróðir minn hefði farið í crossfit þá hefði hann orðið mjög góður. Við erum öll genatísk og ég myndi segja að það hafi hjálpað mér mjög mikið en maður þarf að vera ákveðinn og með ákveðin markmið, það hjálpar manni mest.“

Hefurðu komið sjálfri þér á óvart?

„Já ég bjóst bara aldrei við því að geta unnið neitt mót. Mér fannst magnað ef ég fengi verðlaunapening. Ég keppti einu sinni í Boot camp móti þar sem ég vann Katrínu Tönju. Það tók mig alveg nokkra daga að átta mig á því að ég hefði unnið mót. Það sannaði fyrir mér að þetta er raunhæft. Það geta allir gert það sem þeir vilja ef þeir leggja hart að sér, það er bara þannig.“

Þegar ferlinum lýkur - hvernig viltu hafa afrekaskrána?

„Ég væri til í að hafa unnið heimsleikana. Ég myndi segja að það væri frekar drauma markmið heldur en raunhæft. Það eru allar sigurstranglegar sem komast á heimsleikana og þetta fer mikið eftir því hvaða æfingar koma. Ég væri til í að komast á leikana og komast alltaf í topp fimm sætin, þá yrði ég ánægð með ferilinn minn. Ég er búin að vera tvisvar í þriðja sæti en vonandi verður það öðruvísi í ár. Það eru þarna tvö önnur sæti sem ég væri alveg til í. Það er líka að njóta þess og að geta hugsað eftir á að ég nýtti öll tækifæri sem ég fékk.“
 

Setti óvænt tvö Íslandsmet

 

Sara gerði sér lítið fyrir og setti tvö Íslandsmet í lyftingum á Reykjavíkurleikunum á dögunum. „Það var ekkert planað að fara þar sem ég átti að vera farin út. Ég bjóst aldrei við að slá þessi met eða vinna mótið. Ég bjóst ekki við að vinna lyftingamót þar sem keppt er í þyngdarflokkum. Það var því engin pressa. Með þessu tek ég bara á stefnuna á (ólympíuleikana í)Tókýó árið 2020,“ segir Sara og hlær. Hún er keppir ennþá í lyftingunum samhliða crossfit enda mikið um lyftingar í því sporti.

Krúttlegur aðdáandi reyndist svikahrappur

 

Á dögunum lenti Sara í svikahröppum á Facebook, sem höfðu stofnað síðu í hennar nafni og voru að selja æfingaplön undir hennar nafni. „Það var einhver búinn að sýna mér þessa síðu og ég hugsaði að þetta væri bara einhver aðdáandi, þetta væri bara svolítið krúttlegt. Svo fæ ég skilaboð um að einhver hefði verið að kaupa prógram og það hafði ekki virkað. Ég skildi ekkert enda var ég ekki að selja neitt prógram.“

„Mig langar ekki að það sé verið að nota nafnið mitt til að svindla á einhverjum. Maður áttar sig þarna á því að maður er kannski smá frægur,“ segir Sara og hlær. Sara segir frægðina ekki trufla sig. Hún hugsar aðeins betur um mannorðið sitt. Heima fyrir fær hún frið en þegar hún er í Bandaríkjunum þá er hún reglulega stoppuð á götum úti af fólki sem þekkir hana.

„Þetta er ennþá svolítið skrýtið fyrir mér, ég get alveg viðurkennt það.“

Hefur fengið nokkur bónorð

„Maður hefur alveg fengið skrýtna pósta. Ég reyni að svara flestum. Nema ég fái eitthvað dónalegt.“
Kemur það fyrir? „Ég hef alveg lent í því já. Ég hef fengið nokkur bónorðin. Ég hef ekki svarað þeim ennþá, ég á eftir að velja úr þeim,“ grínast Sara. „Það er alltaf gaman að fá skemmtileg komment en svo er alltaf til einhver sem vill særa þig. Ég las einu sinni öll ummæli um mig og það voru alltaf einhverjir með leiðindi og það særði mig alveg mikið, þannig að ég hætti því. Það fer alveg í þig ef einhver er að segja ljóta hluti um þig. Það særir að lesa svoleiðis þrátt fyrir að það eigi ekki að gera það.“

Sara um einvígið við Katrínu Tönju

 

Á síðasta ári mættust þær Sara og Katrín Tanja heimsmeistari í sérstöku einvígi sem var sjónvarpað. Einvígi var  hluti af þeim æfingum sem þarf að klára til þess að eiga möguleika á sæti á næstu heimsleikum. Henni finnst ekki of mikið gert úr þeirra samkeppni.

„Nei, mér finnst það bara gaman. Þetta er bara skemmtilegt „show“ og gaman að brjóta upp tímabilið. Á leikunum sjálfum þá finnur maður alveg fyrir því en það er bara best að hugsa ekkert um það. Hún er keppinautur en við erum alveg vinkonur líka. Við erum kannski ekki að spjalla mikið á heimsleikunum en þannig er það bara. Við erum ekkert óvinkonur eða þannig.“

Viðtal: Eyþór Sæmundsson
Upptaka og klipping: Hilmar Bragi Bárðarson
Ljósmyndir frá heimsleikum: Berglind Sigmundsdóttir

© Víkurfréttir ehf.