Fischershús er svolítið eins og fuglinn Fönix. Þegar fuglinn fann að tími var komin á það að hann skyldi deyja þá flaug hann til Egyptalands, bjó þar til hreiður og lagði eld að því. Úr öskunni átti svo að rísa nýr Fönix. Fischershús dó fyrir mörgum árum eftir að fjaðrirnar höfðu verið reittar af því ein af annarri. Það var komið í öskuna. Undanfarin misseri hafa fjaðrirnar verið að vaxa að nýju. Fischershús hefur, eins og Fönix, risið úr öskunni. Með niðurrifi á því sem eftir var af rústum H/F Keflavíkur blasir glæsilegt en berskjaldað húsið nú við úr öllum áttum.

Friðlýst í fyrra

 

Fischershús í Keflavík er án efa eitt glæsilegasta hús Reykjanesbæjar. Húsið var byggt árið 1881 og var friðlýst þann 14. júní í fyrra af forsætisráðherra með vísan til laga um menningarminjar. Friðlýsingin tekur til ytra borðs hússins, upprunalegra innviða, innréttinga verslunar og leifa hlaðinna steinveggja á lóð þess.

Síðustu mánuði hefur verið unnið að endurnýjun á ytra birði hússins þar sem nýttir hafa verið allir þeir viðir sem nýtilegir hafa verið en aðrir verið settir nýir. Í síðustu viku luku smiðir við endurgerð klæðningar hússins en auk þess að endurgera klæðningu hússins hefur verið skipt um alla glugga. Nýju gluggarnir eru með upprunalegu útliti, eins og þeir voru þegar húsið var byggt árið 1881. Áður hafði verið skipt um klæðningu á þaki hússins. Á þaki eru að vísu ekki steinskífur eins og upprunalega og var horft til kostnaðar.

Um Fischershús

 

Árið 1881 lét Waldimar Fischer, eigandi miðverslunar í Keflavík, byggja tvíloftað timburhús úr bindingsverki fyrir verslun sína og sem íbúðarhús. Allt timbur í húsið var tilsniðið og merkt í Danmörku. Grindin var sett saman með geirneglingum og þurfti að sögn enga nagla við smíði hennar. Útveggir voru klæddir listasúð og þakið klætt steinskífum í anda Alþingishússins sem byggt var sama ár. Verslun var á neðri hæð hússins og er þar enn að finna hluta gamallar innréttingar hennar. Fischershús var fyrsta tvílyfta húsið í Keflavík. Nýbyggt var það talið „ ... svo vandað og veglegt að allri smíð, frágangi og fegurð, að annað eins hefur ekki verið byggt sunnanlands ...“ 

Árið 1900 var Fischersverslunin seld Ólafi Á. Olavsen. Seinna sama ár var hún seld HP Duus. Flutti Duusverslun starfsemi sína í húsið. Á 20. öld var húsið lengi í höndum útgerðarmanna og fiskvinnslufyrirtækja og reyttust af því fjaðrirnar smám saman. Árið 2013 hófust framkvæmdir við 1. áfanga endurbyggingar hússins samkvæmt áætlunum og uppdráttum Páls V. Bjarnasonar arkitekts. Í húsinu eru upphaflegar innréttingar og þiljur.

Minjastofnun Íslands telur varðveislugildi Fischershúss mjög mikið, meðal annars vegna þess hve byggingin er heildstæð, vel útfærð og heildarform hennar hefur haldist óbreytt.

Óvíst hvað verður í húsinu

Nú hafa iðnaðarmenn lokið við endurbyggingu hússins að utan og aðeins á eftir að mála vesturhlið hússins. Fischershús blasir nú vel við vegfarendum úr öllum áttum því nú hefur verið lokið við að rífa leifar hraðfrystihúss H/F Keflavíkur. Hraðfrystihúsið hefur verið lýti á umhverfinu í mörg ár en stórbruni varð í því að kvöldi þriðjudagsins 17. maí 1983. Rústirnar stóðu í áratugi en niðurrifi þeirra lauk í liðinni viku. Eftir standa reyndar gamall og heillegasti vélasalur frystivéla frá upphafi sögu frystihúsa á Íslandi og bygging sem í dag gengur undir nafninu Svarta pakkhúsið.

Páll V. Bjarnason, arkitekt, er mikill áhugamaður um Fischershús og hefur teiknað þær endurbætur sem unnar hafa verið að undanförnu. Páll var í viðtali við Suðurnesjamagasín Víkurfrétta á dögunum. Hann vill að varlega verði stigið til jarðar þegar kemur að uppbyggingu á lóðinni að Hafnargötu 2, þar sem Fischershús stendur. Reiturinn er verðmætur og gefur mikla möguleika. Páll sér fyrir sér að Fischershús verði móttökuhús Reykjanesbæjar, ekki ósvipað Höfða í Reykjavík. Þar gætu einnig verið skrifstofur, til að mynda bæjarstjóra. Starfsemi flytur ekki í húsið á næstu misserum. Húsið er illa farið að innan og kostnaðarsöm endurnýjun framundan. Þá eru mikil verðmæti í innréttingu Fischersverslunarinnar sem er enn að stærstum hluta í húsinu, auk þess sem mikið af upprunalegri klæðningu er enn á veggjum.

Hugmyndum um talsvert byggingamagn á lóðinni við Hafnargötu hefur verið kastað inn í umræðuna, hús í sama stíl og Fischershús sem myndu þjóna sem hótel, verslun, skrifstofur, gallerý og kaffihús. Aðrir vilja hófstilltari hugmyndir en væntanlega verður einhvers konar ferðaþjónusta eða aðdráttarafl fyrir ferðamenn á svæðinu, blóma- og trjágarður eða bara skjólgott torg til samkomuhalds. Tíminn mun leiða það í ljós.

Steinhleðslan við Fischershús

 

Árið 1898 kom Ágúst Egill Sveinbjörnsson til Íslands frá Ameríku og tók við verslunarstjórastöðu í Duus versluninni. Ágúst Egill kallaði sig Ágúst Olavsen. Ágúst var mjög forframaður því hann hafði dvalið langdvölum í Danmörku og í Chicago í Ameríku. Ágúst Ólavsen bjó yfir margskonar ráðagerðum varðandi Keflavíkurþorpið. Hann hafði mikinn hug á að fegra bæinn. Hafði hann í huga gatnagerð og skipulag bæjarins, lét færa hús til og rífa, ef honum þótti betur fara. Ágúst Olavsen gekk með stóran draum í maganum. Hann var vanur því að geta gengið um listigarða Ameríku og langaði til að koma upp blóma- og trjágarði í Keflavík. Hann hafði hugsað sér að listigarðurinn yrði staðsettur fyrir ofan nýtt verslunarhús Duus verslunar sem flutt var frá Danmörku, sem þá var orðið heimili og sölubúð Duusverslunar. Hafði hann í því skyni látið byggja steingarð stóran sem að Símon Eiríksson steinsmiður sá um að hlaða fyrir hann. Hvorki trén né blómin fóru niður í moldina því Ágúst var fluttur um set til Duusverslunar í Reykjavík árið 1909 og lést í Danmörku skömmu síðar.
Heimild: FAXI - 2. tbl. 2007