Kristiansand, vinabær Reykjanesbæjar í Noregi, hefur gefið jólatré til Reykjanesbæjar og áður Keflavíkur í yfir 50 ár. Það, að kveikja ljósin á trénu, hefur markað upphaf jólaundirbúnings í Reykjanesbæ. Athöfnin á torginu framan við bæjarskrifstofurnar á Tjarnargötu er líka alltaf vel sótt og hefur verið lögð áhersla á að hafa skemmtilega dagskrá fyrir yngstu bæjarbúana.

Í helgarútgáfu norska blaðsins Fædrelandsvennen sem gefið er út í Kristiansand er ítarleg umfjöllun um langt ferðalag jólatrésins frá Kristiansand til Reykjanesbæjar. Fædrelandsvennen, eða Föðurlandsvinurinn, gerir málefninu skil á fjórum síðum í blaðinu. Umfjöllunin hefst á opnumynd frá því er kveikt var á jólaljósum á trénu í Reykjanesbæ í byrjun aðventunnar og svo kemur önnur opna þar sem sýndar eru myndir frá því að tréð var fellt í skógi við Kristiansand og það flutt til Reykjanesbæjar. Þá eru birtar fleiri myndir frá skemmtuninni á ráðhústorginu í Reykjanesbæ en myndirnar tók Hilmar Bragi, ljósmyndari Víkurfrétta, fyrir norska blaðið.

Víkurfréttir hafa þær upplýsingar frá norsku ritstjórninni að þar á bæ hafi það komið á óvart hversu margir bæjarbúar hafi safnast saman við jólatréð þegar ljósin voru tendruð.

Norska blaðið Fædrelandsvennen var með fjórar síður um jólatréð í Reykjanesbæ.

Það var sendiráðsritarinn úr norska sendiráðinu, Carina Ekornes, sem afhenti tréð formlega og Guðbrandur Einarsson, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, veitti því viðtöku. Bergur Leon Bjarnason, nemandi í 6. bekk Holtaskóla, tendraði svo jólaljósin.

Skjóða og Langleggur, sem eru systkini jólasveinanna, komu svo og skemmtu yngstu bæjarbúunum. Skjóðu finnst gaman að segja sögur úr Grýluhelli en Langleggur er eitthvað fámálli. Þau stýrðu svo jólaballi þar sem dansað var í kringum jólatréð. Til að halda hita á mannskapnum sá svo Tónlistarskólinn í Reykjanesbæ um heitt kakó og piparkökur.

Meðfylgjandi ljósmyndir voru teknar þegar kveikt var á jólatrénu í Reykjanesbæ.

Lúðrasveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar spilaði jólalög og kom fólki í stemmningu.

Skjóða og Langleggur skemmtu yngstu kynslóðinni.

Jólasveinar dönsuðu í kringum jólatréð með bæjarbúum og sprelluðu fyrir ljósmyndarann.