Fyrstu tónleikar tónleikaraðarinnar Söngvaskáld á Suðurnesjum verða tileinkaðir söngkonunni, tónlistarmanninum og tónskáldinu Ingibjörgu Þorbergs sem snemma varð þekkt söngkona og að auki kunn fyrir lög og ljóð barnalaga og jólalaga sem hafa lifað fram á þennan dag.

Til gamans má geta að Ingibjörg verður níræð á árinu en hún er enn að semja lög og ber aldurinn vel. Við hittum þennan frumkvöðul á sviði barnatónlistar og plötuútgáfu einn eftirmiðdag þar sem hún var í hvíldarinnlögn á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og var vel tekið á móti okkur.

„Ég er mjög þakklát fyrir að fá að verða svona gömul,“ segir Ingibjörg brosandi með sinni fínlegu rödd. „Ég get ekki hlaupið og ekki dansað sem er svolítið leiðinlegt en göngugrindin bjargar mér svo ég komist um.“

Innslag um Ingibjörgu byrjar á mínútu 15:44 í myndskeiðinu hér að neðan.

Ingibjörg hefur samið fjölda laga og eru Aravísur og Hin fyrstu jól líklega þekktust og er óhætt að segja að hún sé eitt af stóru nöfnunum í íslenskri tónlistarsögu. Þá hefur hún átt þátt í að móta íslenskt útvarp með tilliti til barnaefnis og ekki hvað síst í að varða leið kvenna í íslenskri tónlist með framlagi sínu.

 

Það var engin sæld að keyra til Keflavíkur

Ingibjörg flutti til Keflavíkur á efri árum en hún hefur alla tíð haft sterka tengingu við bæinn. Þar býr frændfólk hennar sem og bróðirinn Skúli sem ílengdist eftir sumarvinnu á vellinum. Í Keflavík fann hann eiginkonu og nýlega fögnuðu þau 60 ára brúðkaupsafmæli sínu. Það var því oft keyrt til Keflavíkur í heimsóknir.

„Það var alltaf gaman að koma til Keflavíkur. Við fórum oft í heimsókn til Guðrúnar mágkonu minnar og þangað var gaman að koma í veislur því hún var flínk að baka og gera mat hvort sem það var á barnaafmælum eða jólum. Það vildi enginn missa af þeim veislum. Það var þó engin sæld að keyra til Keflavíkur, vegurinn var holóttur og oft þurfti að hvíla bílinn þegar komið var upp á Stapa. Stundum var ekið of geyst og þá þurfti að laga gamla skrjóðinn.“

Það var vel tekið á móti Ingibjörgu þegar hún fluttist til Keflavíkur ásamt eiginmanni sínum og píanóleikara Guðmundi Jónssyni og hrósar hún Keflvíkingum sérstaklega fyrir það hversu vel þeir halda við gömlu húsunum sínum.

Menn vissu að það var komið tónskáld í bæinn og á síðasta ári fékk Ingibjörg heimsókn frá nemendum í Myllubakkaskóla sem fluttu fyrir hana Aravísur sem þau höfðu lært í skólanum. „Ég fór út á svalir eins og forsetinn og hlustaði á þau syngja og leika og þau gerðu það svo vel að hvert orð skildist,“ sagði Ingibjörg hrifin en þau eru ófá barnalögin sem liggja eftir hana.
 

Samdi sitt fyrsta lag níu ár gömul

Ingibjörg var syngjandi frá því að hún man eftir sér og fór að spila á orgel um leið og fæturnir náðu niður á petalana, aðeins níu ára gömul hafði hún samið sitt fyrsta lag. „Ég þóttist alltaf vera að búa til lög,“ segir Ingibjörg hlæjandi en hún náði lagi fljótt og oft var spilað eftir eyranu.

Ingibjörg lærði bæði á gítar, orgel og píanó en lagði síðan stund á klarinettuleik og varð fyrst íslenskra kvenna og í raun fyrsti Íslendingurinn til þess að ljúka einleikaraprófi á klarinett. Þá lærði hún jafnframt tónsmíðar og til tónmenntakennara.

„Ég heillaðist svo af klarinettkonsertinum hans Mozart og ég ákvað að ég gæti ekki lifað án þess að spila hann. Það gerði ég, lauk náminu og spilaði konsertinn en ég tímdi ekki að hætta að syngja og á endanum varð söngurinn ofan á,“ segir Ingibjörg en hún var farin að syngja opinberlega um 1950, bæði með Smárakvartettnum og Marz bræðrum sem og hljómsveitum Carls Billich og Aage Lorange. Hún var með fyrstu dægurlagasöngvurum hérlendis en slíkur söngur á dansleikjum átti þó lítt við hana.

Leiddist að syngja á fylliböllum

„Ég var svo sveitaleg, var aldrei á börunum eins og allir sem vildu vera listamenn í Reykjavík. Ég fór aldrei neitt svoleiðis og mér leiddist að syngja á fylliböllum. Þess vegna var ég ekki mikið að syngja með danshljómsveitum og best fannst mér að syngja í templarahúsinu í Gúttó þar sem fólk var að hlusta.“

Þrátt fyrir að söngur á dansleikjum hugnaðist ekki Ingibjörgu þá lagði hún dægurlagasöng fyrir sig og átti eftir að syngja inn á fjölmargar hljómplötur. „Mamma var klassísk í sér og vildi helst ekki að ég væri í dægurlögum, hún sagði að það myndi eyðileggja fyrir mér. En mér fannst svo gaman að syngja í míkrafón,“ segir Ingibjörg og hlær.
 

Ingibjörg var aðeins nítján ára gömul þegar hún hóf störf hjá Ríkisútvarpinu en þar starfaði hún lengst af á tónlistardeildinni og annaðist meðal annars þáttagerð fyrir börn en það má segja að hún hafi átt stóran þátt í að móta útvarpsefni fyrir þann aldurshóp.
„Ég var svo mikið með barnatímana og þar vantaði alltaf ljóð og lög. Þá varð maður bara að semja og ef okkur vantaði kór þá var það enginn vandi og þá var kannski hóað í krakkana hans Hjálmtýs, Diddú og systkini og þá var kominn kór,“ segir Ingibjörg kankvís en tekur þó fram að Páll Óskar hafi enn verið í vöggu og því ekki getað tekið þátt. „Tónlistin var tekin upp um leið og svo spiluð í þættinum.“

Það er óhætt að segja að Ingibjörg sé frumkvöðull á sviði tónlistar en auk þess að vera fyrsti Íslendingurinn til að ljúka einleiksprófi á klarinett þá var hún fyrsta konan til þess að syngja eigið lag og texta inn á hljómplötu. Lagið ‘Á morgun’ er eitt þeirra og það heillaði svo amerískan háskólakór sem heimsótti Ísland að Ingibjörgu var boðið með til Bandaríkjanna og samdi hún enskan texta við lagið.

„Ameríski söngstjórinn heyrði að ég ynni á útvarpinu og hefði samið þetta lag, Á morgun, sem var komið út á plötu. Hann spurði hvort ég gæti samið enskan texta sem úr varð og kórinn söng lagið sem hét þá Tomorrow. Ég var voðalega feimin, var látin standa upp en samt voru þarna engin lög eftir stóru tónskáldin okkar,“ segir Ingibjörg hæversk en í kjölfarið fylgdi tveggja mánaða ferð um Bandaríkin þar sem hún kom fram bæði í útvarpi og sjónvarpi og bauðst meðal annars plötusamningur hjá Capitol Records. Ingibjörg hafnaði hins vegar tilboðunum þar sem kominn var tími á heimför og vinnan á útvarpinu beið.


 

Aravísur, Jólakötturinn og fyrsta íslenska jólalagið

Framlag Ingibjargar til barnatónlistar er ótvírætt og eru Aravísur til að mynda eitt ástsælasta barnalag á Íslandi. Það var Tage Ammendrup sem starfaði með Ingibjörgu á útvarpinu sem fékk hana til þess að semja lagið og syngja vísur Stefáns Jónssonar inn á plötu árið 1954 en á þeim árum þekktist það varla að það kæmi eitthvað út sem eingöngu var ætlað börnum. Þá sló lagið hennar um Jólaköttinn í gegn.

„Jólakötturinn gerði strax lukku en ég var löngu búin að semja lagið því mér fannst synd að ekki væri til lag við vísur Jóhannesar frá Kötlum. Ég held mikið upp á jólaköttinn, hann hefur ekki gert mér neitt illt. Enda ef börnin fengu einhverja flík fóru þau ekki í jólaköttinn og ég fór aldrei í jólaköttinn, maður fékk alltaf eitthvað til dæmis sokka eða klút um hálsinn.“

Ingibjörg samdi fyrsta íslenska jólalagið sem kom út á plötu og ekki var sálmur en það er lagið Hin fyrstu jól við ljóð Jóhannesar úr Kötlum. „Tage Aamendrup hringdi til mín og spurði hvort ég gæti ekki samið íslenskt jólalag ef hann fengi Kristján frá Djúpalæk til að semja texta. Honum fannst það vera alveg ótækt að við værum að syngja erlend lög eins og Oh My Darling Clementine á jólum. Mér þótti gaman að prófa það og ég var svo lukkuleg hvað þjóðin tók því vel. Þá var ég fegin þegar það kom ljósritunarvél því ég var alltaf að skrifa lagið upp, ég gat ekki neitað fólki um lagið því það var svo ánægt.“ Þess má geta að Ingibjörg samdi enskan texta við Hin fyrstu jól og grínaðist hún með það að líklegast hafi hún verið fyrst Íslendinga til þess að fara í poppútrás erlendis þegar lagið var við eitthvert tækifæri flutt á erlendri grundu.

 

Erfitt að vera kona í þessum bransa?

Ingibjörg hefur verið fyrirmynd kvenna en á sama tíma hefur hún þurft að berjast fyrir sínu en til að mynda var henni hafnað þegar hún sótti um inngöngu í Tónskáldafélagið á sínum tíma. „Það hefur alltaf verið erfitt að vera kona í þessum bransa en það hefur lagast í seinni tíð.“

Ingibjörg er enn að semja en eftir hana liggur á um þriðja hundruð laga og mikið af textum og ljóðum. „Ég er nýbúin að semja eitt lag sem var mjög erfitt því mig langaði í lag sem allir gætu lært auðveldlega og spilað á gítar. Það er þó erfitt að semja auðvelt lag. En ég get ekki skrifað neitt núna, er svo slæm af gigt og fæturnir halda mér í ströngu fangelsi. Ég er hætt að spila á gítarinn og píanóið og skrifa ekki lengur út eins og ég gerði og set bara hljómana við,“ segir Ingibjörg en ljóst er að framlag hennar til íslensks tónlistarlífs verður seint metið að verðleikum og er hún tvímælalaust eitt af stóru nöfnunum í íslenskri tónlistarsögu og sannkallaður vinur barnanna.


Tónleikarnir um Ingibjörgu Þorbergs verða haldnir í Hljómahöll fimmtudaginn 2. febrúar nk. en þar verða m.a. flutt hennar þekktustu lög eins og Aravísur, Grýlukvæði, þrettándasöngur, Á morgun, Nú ertu þriggja ára, Litli vin og Hin fyrstu jól sem eru fyrir löngu orðin eign þjóðarinnar.