„Ég mun koma ykkur á óvart,“ segir Ethoríó, listamaður, sem hélt sína fyrstu einkasýningu á Ljósanótt síðastliðið haust. Ethoríó er hliðarsjálf Eyþórs Eyjólfssonar og kemur oftast fyrir sjónir með hringlótt sólgleraugu. Hann gerir popplist í anda Erró og segir samfélagsmiðla vera sinn helsta innblástur.

„Orðrómur fólksins og það sem er að gerast í samfélaginu. Hlutir sem eru á vörum allra finnst mér áhugaverðir og ég les mikið af athugasemdum sem fólk skrifar við fréttir. Ég nota minna mínar eigin skoðanir.“ Í verkum Ethoríós má finna ádeilu, ögrun og skírskotanir og segir hann flest verkin innihalda einhvers konar skilaboð. 

Stefnan er sett á listnám í Bretlandi en Eyþór tók eitt ár í Listaháskóla Íslands. „Ég fann mig ekki alveg þar en stefni á að klára námið erlendis.“ Eyþór byrjaði ungur að teikna skrípamyndir en tók það ekki alvarlega fyrr en hann komst á unglingsárin og sá sitt fyrsta Erró verk. „Ég fór þá að kunna að meta listina betur og ákvað að fara í listnám.“

En hvernig kom Ethoríó til sögunnar?
„Ég mun ekki ljóstra því upp fyrr en eftir 30 til 40 ár. Það var eitthvað sem small í hausnum á mér. ‘The secret to my success, is that it is a secret.’ En hann er alþjóðlegur. Hann er ekki bara íslenskur. Fólk mun komast að uppruna hans, en ekki strax.“ 

Ethoríó sér sjálfan sig sem blöndu af þremur listamönnum, Erró, Andy Warhol og Salvador Dalí. „Erró er ástæðan fyrir því að ég byrjaði í list. Hann er popplistamaður Íslands. Ég hugsaði alltaf með mér ‘ef hann getur þetta, þá get ég þetta.’ Andy Warhol er þessi hljóðláti, dularfulli listamaður sem segir ekki of mikið. Salvador Dalí er sá sem er alltaf í karakter. Það er markmið mitt, að vera alltaf í karakter. En maður þarf að vinna fyrir því, annars yrði manni bara hent inn á Klepp.“

Verk Ethoríós innihalda mörg nekt og segir hann það vera eitthvað sem hann muni vinna mikið með í framtíðinni. „Nekt sýnir svo mikið hver þú ert. Mér finnst svo sterkt að vera nakinn. Maður er frjáls en mjög berskjaldaður. Ég reyni að draga nektina frá fólkinu. Líkaminn er eitt það fallegasta sem ég veit, en nekt er tabú.“

Ethoríó notar þrjú tákn sem endurspegla öll eitthvað. Þríhyrning sem táknar sjónina, eða hugsjón hans, tvær línur sem tákna tónlistina og tvo punkta sem eru hendurnar hans en líka fórn. Punktarnir eru nefnilega brenndir í handarbök hans. „Þeir tákna handverkið. Ég nota hendurnar til að mála, teikna og búa til tónlist.“ Tónlist er stór partur af lífi hans en hann æfði á trommur í tíu ár og er í tveimur hljómsveitum, Par-Ðar og AVóKA. Hljómsveitirnar lentu í öðru og þriðja sæti á Músíktilraunum 2015 og var Ethoríó auk þess valinn besti trommarinn í þeirri keppni.

Par-Ðar spilar „sækadelik“ rokk, eða sýrurokk, og er að vinna í sinni fyrstu plötu. „Hún á að vera í anda Lifunar frá Trúbrot, þar sem platan er ein heildarsaga. Platan er um sjálfið, hvernig fólk lítur á sjálft sig. Það ýmist brotnar niður eða lífgar sig upp. Hún mun heita Upplifun.“ AVóKA gaf út plötuna KoK í október síðastliðnum. Þau kalla tónlist sína „doom pop,“ eða Reykjavíkurrokk. Þetta er í raun draumkennt popp sem inniheldur ádeilu. Báðar hljómsveitirnar spiluðu á Iceland Airwaves í haust og vöktu athygli erlendra blaðamanna.

Ethoríó segir þó myndlistina vera í fyrsta sæti hjá sér. Hann muni þó aldrei hætta í tónlist enda sé hún stór partur af honum. „Ég mála til dæmis alltaf með tónlist. Ég held ég hafi aldrei málað eða teiknað mynd án tónlistar.“ Aðspurður um markmið hans í listinni segir hann það vera að hafa áhrif á listasöguna til framtíðar. „Sama hvernig ég fer að. Ég veit ekki hvernig, en einn dag í einu.“

hildur@vf.is