Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku, segir að það séu skemmtileg tímamót hjá fyrirtækinu um þessar mundir þegar það hefur flutt höfuðstöðvar sínar úr Reykjanesbæ í Svartsengi í Grindavík en forveri þess, Hitaveita Suðurnesja, hóf orkuvinnslu þar fyrir rétt rúmum fjórum áratugum eða árið 1976. Tæp tíu ár eru síðan Hitaveitu Suðurnesja hf. sem margir sögðu gullegg Suðurnesjamanna, var skipt í tvö fyrirtæki. Við spyrjum Ásgeir út í þær breytingar, mögnuð áhrif orkuvinnslunnar í Svartsengi og frekari starfsemi fyrirtækisins.

-Þetta eru skemmtileg tímamót þegar þið flytjið starfsemina til Grindavíkur í Svartsengi, rétt um fjörutíu árum eftir að orkuvinnsla hófst þar?
„Já, þetta er það svo sannarlega og það er kannski gaman að líta til baka í leiðinni og hugsa að núna í lok árs 2016 þá flytjum við höfuðstöðvarnar í Svartsengi þar sem starfsemi fyrirtækisins hófst. Fyrirtækið var stofnað árið 1974. Orkuframleiðsla í Svartsengi hófst árið 1976. Þannig að 40 árum síðar er skrifstofan komin í hjartað, ef svo má segja. Ekki bara hjarta orkuvinnslunnar heldur hjarta auðlindagarðsins og þeirrar fjölbreyttu starfsemi sem hér fer fram. Við vorum jú lengi til húsa á Brekkustíg í Reykjanesbæ. Sagan á bak við það er að sjálfsögðu Hitaveita Suðurnesja sem var öflugt fyrirtæki sem gerði mjög góða hluti fyrir Suðurnes og landið. Virkjaði við Svartsengi, á Reykjanesi og lagði hér pípukerfi og dreifikerfi um byggðir.“

Það er við hæfi þegar rétt rúmir fjórir áratugir eru liðnir frá stofnun Hitaveitu Suðurnesja í Svartsengi að rifja upp af hverju fyrirtækinu var skipt upp í HS Veitur og HS Orku.
„Því fyrirtæki var svo skipt upp út af breyttum orkulögum. Þannig að veitustarfsemi skyldi aðskilin frá raforkuframleiðslu og sölu sem er samkeppnisstarfsemi og starfar á samkeppnismarkaði, á meðan veitustarfsemin er háð sérleyfum. Þetta mátti ekki lengur vera í sömu fyrirtækjunum. Þannig að hitaveitunni var skipt upp í HS Orku og HS Veitur. Í framhaldi af uppskiptingunni sem átti sér stað í lok árs 2008, þá varð smám saman þróun á breytingu starfa innan beggja fyrirtækjanna. Og núna er stigið lokaskrefið í því, með flutningi okkar hingað. Áður höfðum við samnýtt ákveðna þjónustuþætti, í fjármálum, starfsmannahaldi, skjalavörslu, öryggismálum og í tölvumálum. Núna eru þessi fyrirtæki algjörlega aðskilin. Við fluttum út, HS Veitur keyptu húsnæðið á Brekkustíg og búa þar og við flytjum hingað í Eldborg í Svartsengi. Fyrirtækin eru algjörlega aðskilin hvað allt starfsmannahald varðar. Vissulega eru mikil viðskipti á milli fyrirtækjanna. Við seljum þeim rafmagn, heitt og kalt vatn í heildsölu sem þau svo flytja til byggðanna og selja viðskiptavinum. Þau selja okkur ákveðna þjónustu á sviði innheimtu og reikningagerðar. Þannig að við samnýtum ákveðna kosti þar. Ekki síst til þess að spara pappírsflæði og þess háttar. En að öðru leyti eru þetta alveg sjálfstæð fyrirtæki og búin að vera frá 2008 með sitthvora kennitölu og stjórn. Eignarhaldið er alveg aðskilið.“


Það varð mikil umræða um eignarhaldið í framhaldinu.
„Þegar ríkið, á sínum tíma, ákvað að selja sinn hlut í Hitaveitu Suðurnesja og það varð mikil umræða um að það hafi verið selt til einkaaðila, ekki bara það sem ríkið seldi, sem voru jú bara 15% í Hitaveitunni á sínum tíma, heldur vildu margir aðrir eigendur, s.s. sveitarfélög, losa fé og selja sinn hlut. Á endanum, hvað varðar HS Orku, þá fór það svo að fyrirtækið var allt selt, ekki bara til einkaaðila heldur til erlends aðila líka og það var mikið í umræðunni um það þegar Magma Energy á sínum tíma keypti stóran hlut í HS Orku. Magma sameinaðist síðan öðru félagi og úr því varð fyrirtæki sem heitir ALTHERA Power. Altera á í dag tæplega 2/3 í HS Orku. Samstarfið við þá og eignarhald þeirra hefur verið afar farsælt og gott og farnast fyrirtækinu vel. Rúmur þriðjungur er hins vegar í eigu íslenskra lífeyrissjóða, í félagi sem heitir Jarðvarmi, samlagshlutafélag í eigu þrettán lífeyrissjóða. Það eru allir stærstu lífeyrissjóðir landsins eigendur, sem í raun og veru þýðir að flest allir landsmenn hafa hag af velgengi HS Orku. Við erum að hluta til í eigu fólksins, þó það sé ekki í eigu ríkisins eða sveitarfélaga, að drjúgum hluta. Samstarf hluthafanna hefur verið alveg frábært. Okkur hefur gengið vel. Við horfum björtum augum fram á veginn. Það að flytja hingað í Eldborg gefur okkur ný tækifæri til að vinna við hliðina á okkar starfsmönnum sem reka orkuverin. Við nýtum sama matsalinn, hittumst oftar, tölum meira saman með óformlegum hætti. Okkur líður betur. Þetta er náttúrulega stórkostlegur staður, með hraunið og Þorbjörn, náttúruna allt í kring.“

Og þið leitið nýrra tækifæra í orkumálum?
Já, nýjasta, stóra dæmið í því er djúpborunarverkefnið á Reykjanesi, þar sem við viljum, má svolítið segja af forvitni, athuga hvað sé fyrir neðan jarðhitakerfið. Vísbendingar um djúpboranir eru afar áhugaverðar, gefa fyrirheit um að hugsanlega náum við stóru markmiðunum í verkefninu, sem eru að framleiða orku með minni umhverfisáhrifum og fyrir lægri kostnað. Það eru stóru málin. Þetta er fyrsta holan, sem tekst með þessum hætti. Það mun byrja að koma í ljós á næsta ári. Fyrst erum við að kæla hana núna, svo látum við hana hitna upp og förum að kíkja svolítið í pakkann á næsta ári, hvað hún mun hugsanlega gefa okkur. Við erum að vinna að fjölmörgum öðrum verkefnum. Við erum vissulega í undirbúningsferli fyrir hugsanlega jarðhitanýtingu í Eldvörpum og við reynum að vanda mjög til verka í því sem og í öllu öðru sem við gerum. Það eru ekki allir sáttir við allt sem við gerum, við gerum okkur grein fyrir því. Skoðanir mega og eiga að vera skiptar, en þá þarf að skiptast málefnalega á sjónarmiðum. Við erum ekki að virkja fyrir okkur, við erum að virkja fyrir samfélagið. Við notum ekki orkuna sjálf, við seljum hana öðrum, til dæmis rafmagnið. Við erum að bregðast við þörfum samfélagsins. Það er ekki okkar að ákveða hvað sé gert í landinu, hvers konar verksmiðjur eða starfsemi sé byggð, en það er mikill uppgangur í samfélaginu, öll hótelin sem verið er að byggja, öll ferðaþjónustan og allt annað, öll starfsemi, allt þarf rafmagn. Það vantar einfaldlega bara meiri raforku í landinu í dag.
Við erum að leita aðeins fyrir okkur í vatnsafli líka og erum núna væntanlega í sumar að hefja framkvæmdir við fyrstu vatnsaflsvirkjunina okkar og erum að vinna að slíkum verkefnum á nokkrum stöðum á landinu. Við horfum til jarðhitanýtingar í Krísuvík í framtíðinni líka. Við sjáum fyrir okkur nýtt afsprengi auðlindagarðsins þar, með fjölþættri nýtingu.“

Það er óhætt að segja að Auðlindagarðurinn hafi undið upp á sig svo vægt sé til orða tekið?
„Auðlindagarðurinn er alveg stórmerkilegt fyrirbæri. Hann er ekki eitthvað svona vel skilgreint sem einhver á. Við erum að tala um samfélag sjö, átta fyrirtækja, sem samtals hafa í vinnu hjá sér hátt í þúsund manns. Samkvæmt skráningu í fyrra voru það um 900 manns og þeim fer fjölgandi yfir þúsund á þessu ári, en í HS Orku, sem er upphafið að þessu öllu saman, starfa 60 manns. Efnahagsleg og samfélagsleg áhrif af þessu eru gríðarleg. Þetta eru mælanleg áhrif á útflutningstekjur þjóðarinnar. Þetta eru mælanleg jákvæð áhrif á atvinnustig, ekki síst hér á Suðurnesjum, til dæmis eftir að herinn fór og eftir hrun. Atvinnuleysi hefði einfaldlega verið meira ef Auðlindagarðurinn hefði ekki verið kominn til. Stærsta einingin í honum er að sjálfsögðu Bláa Lónið. En hér við hliðina á okkur er eldsneytisframleiðsla hjá Carbon Recycling, hótelið Northern Light Inn og hátækni gróðurhús hjá Orf líftækni. Það er verið að byggja fiskeldi hérna fyrir vestan Grindavík, hjá Matorku. Það er fiskeldi á Reykjanesi hjá Stolt Seafarm og síðan eru fiskþurrkunar-fyrirtækin Háteigur og Haustak einnig á Reykjanesi. Allt eru þetta fyrirtæki sem geta ekki verið annars staðar en við hliðina á orkuverinu út af því sem þau fá frá okkur. Við erum að ljúka byggingu verksmiðju hér í Svartsengi sem hreinsar koltvísýring úr gasinu sem kemur upp með gufunni til þess að geta gert kolsýrða söluvöru, frekar en að sleppa henni út í andrúmsloftið, á tappa og kúta og selja. Það eru verðmæti í þessu. Þetta er boðskapurinn hans Alberts okkar (Albertssonar), að henda engu og ef það er eitthvað sem við höldum að sé úrgangur, þá eigum við eftir að átta okkur á því hvernig það getur nýst og gagnast í víðum skilningi.“

-En er endalaus orka til?
„Nei. Það er ekki svo. Það er mikið vandaverk að nýta jarðhitaauðlindina með réttum hætti. Við höfum til dæmis á Reykjanesi áttað okkur á því að öll skref hafa ekki verið alveg rétt stigin. Við höfum séð örlítið minnkandi framleiðslu en við höfum líka brugðist við og séð hana vaxa aftur. Þetta hefur aðeins gengið í bylgjum. Við erum búin að vera að vinna á Reykjanesi í um tíu ár. Við erum ennþá á lærdómsferlinu þar, ef svo má segja. Við erum að læra taktinn í jafnvæginu þar. Í Svartsengi erum við búin að vera í 40 ár og erum fyrir löngu búin með þennan lærdómsferil og komin í stöðugt ástand, í samhengi eða jafnvægi milli vinnslu annars vegar og niðurdælingar hins vegar, að skila vökva aftur niður í kerfi. Það þarf alltaf að finna jafnvægi á hverjum stað. Lögmálin sem gilda í Svartsengi gilda ekkert öll á Reykjanesi. Hvert svæði hefur einstaka eiginleika og einstakan karakter og það tekur svolítinn tíma að læra á það.“

-Er það ekki svolítið sérstakt, þetta er nú ekki langt frá?
„Jú, það er sérstakt, en það er samt töluvert mikill eðlismunur. Jarðhitavökvinn í Svartsengi er 240 stiga heitur. Á Reykjanesi er hann um 300 stiga heitur. Hann er miklu heitari og saltari. Þar er jarðhitavökvinn með fulla sjávarseltu. Í Svartsengi er hann með 2/3 hluta af seltu sjávar sem þýðir að hann er um það bil 2/3 sjór og ⅓ ferskvatn eða grunnvatn. Efnasamsetningin er önnur. Tæringar eru meiri á Reykjanesi, en aftur á móti gas innihald er minna. Þannig að þetta er ekki það sama og einhvers staðar þarna á milli eru Eldvörp og það á eftir að skoða svona nákvæmlega hverjir eiginleikarnir eru þar. Þessir efnaeiginleikar, þeir líka ráða því hvað sé hægt að gera. Blátt lón úti á Reykjanesi yrði aldrei eins og blátt lón í Svartsengi af því að efnafræði vökvans er önnur, svo dæmi sé tekið. Það er reyndar svona affallslón úti á Reykjanesi sem er kallað „Gráa lónið“, en það er bara affallslón. Það er mikill kísill í vökvanum á Reykjanesi. Það er verið að vinna skoðun á því að nýta hann, það er að segja hreinsa hann úr jarðsjónum og þar kemur ný söluvara, svona kísilduft sem hægt er að nota í málningu, gúmmí, snyrtivörur og margt fleira. Við erum rétt að byrja. Það á eftir að finna margar nýjar framleiðsluafurðir í Auðlindagarðinum. Í jarðsjónum á Reykjanesi eru  enn frekar málmar. Það er verið að vinna að rannsókn, íslensk stúlka í Cornell háskóla í Bandaríkjunum, finnur leiðir til þess að vinna liþíum úr jarðhitavökvanum á Reykjanesi. Þetta er eitthvað sem einhvern tímann hefði þótt alveg ótrúlegt. En þannig hefur þetta fyrirtæki alltaf verið, Hitaveitan og HS Orka. Gera nýja hluti, gera hlutina vel, vanda sig, stíga varlega til jarðar, finna nýjar leiðir, búa til ný verkfæri, nýjar aðferðir. Það eru fjölmargir hlutir sem hafa verið gerðir í orkuverunum okkar sem höfðu aldrei áður verið gerðir neins staðar.“

-Það er svolítið magnað að eitt af þessum dæmum, sem eru nokkuð nýleg, er hvernig flatfiskframleiðslan á Reykjanesi er að nýta kælivatnið sem þið eruð búin að nota.
„Já, það er eitt stórkostlegt dæmi. Á Reykjanesi eru engir kæliturnar, eins og gjarnan eru við orkuver, heldur eru vélarnar, það sem við köllum sjókældar. Ekki það að við leggjum bara vöru út í sjó og dælum sjónum úr hafinu, heldur eru boraðar holur við ströndina, 100 metra frá sjó. Úr þeim er tandurhreinum sjó dælt sem síast í gegnum hraunlögin. Það er ekkert lífrænt í sjónum. Hann er algjörlega hreinn. Hann er notaður til að kæla vélarnar. Hvað gerist við kælivökva? Hann hitnar. Sjórinn hitnar. Hann fer frá okkur, tandurhreinn, volgur sjór í fiskeldi, til Stolt Seafarm og þar eru menn að ala ákveðna kolategund. Við 23 stig, stöðugum hita er árangurinn meiri og betri heldur en utanhússræktun í heitum löndum af því að það eru alltaf stýrðar aðstæður, með frábærum árangri. Þetta er rándýr afurð, dýr fiskur. Hann er alinn upp í stærð þar sem er einn fiskur á disk. Kannski tæpt hálft kíló fiskurinn og þetta gengur alveg stórkostlega vel og þeir vilja stækka.“

-Eitt af svona umtöluðum málum sem hafa tengst HS Orku undanfarin ár, eru tengslin við álver í Helguvík.
„Það var gerður samningur árið 2007 af Hitaveitu Suðurnesja við Norðurál um orkusölu til álvers í Helguvík sem þá var fyrirhugað. Samningurinn var háður fyrirvörum um að eitt og annað gengi upp, um að það fengjust öll leyfi, um að orkan fyndist og að arðsemi væri ásættanleg. Orkuverðið í þessum samningum var tengt álverði, þannig að hráefnisverð á áli, sem sagt álverðið var ríkur þáttur. Það var unnið að mjög svo heilum hug í áraraðir við að reyna að koma þessu á en tókst ekki, í raun og veru hvorki okkar megin né þeirra megin. Álverið var jú aldrei fullbyggt og fyrirvararnir voru aldrei uppfylltir. Þeir voru alltaf á samningnum. Það fór í málaferli, í gerðardómsmál, reyndar í í tvígang, og í seinna skiptið hófum við það mál og töldum að samningurinn væri ómerkur, hann væri fallinn á tíma og forsendum. Niðurstaða dómsins í lok síðasta árs var sú að samningurinn væri ekki lengur í gildi. Ekki af því að við hefðum ekki staðið við hann eða að Norðurál hefði ekki staðið við hann. Við vorum ekki að fara í mál við Norðurál. Við vorum ekki að saka þá um að hafa ekki staðið við sitt, heldur utanaðkomandi aðstæður, álmarkaðinn. Fyrir utan það að okkur hafði ekki tekist að afla allra leyfa til þess að vinna alla þá orku sem til þurfti. Í stóru myndinni, þá má setja þetta í samhengi við það að heimurinn í millitíðinni fór á hvolf árin 2007 og 2008. Þegar samningurinn var gerður þá var álverð og horfur um álverð þannig að álverðið var um 2700 dollarar á tonn og stefndi yfir 3000 dollara á tonn. Það fór yfir 3000 dollara rétt fyrir hrun. Í dag er álverðið um helmingur af því, sem þá var áætlað að yrði núna vel undir 2000 dollurum, það er að segja orkuverðið væri helmingi lægra heldur en þeir reiknuðu með að það yrði. Svo ég sletti nú aðeins þá er það bara ekki bisness, það hefði aldrei gengið upp. Þessar utanaðkomandi forsendur urðu til þess að dómurinn sagði: „Samningurinn er ekki lengur til.“ Hvað þýðir það? Fyrir okkur þýðir það að ekki er lengur sú óvissa sem var áður um að ef við til dæmis virkjum í Eldvörpum eða stækkum á Reykjanesi, að við þyrftum að selja orkuna á hálfvirði til álvers sem kannski yrði byggt, heldur getum við, með frjálsar hendur, selt það til einhverra annarra. Við erum að selja orku í töluverðum mæli til gagnaversins á Fitjum, svo dæmi sé tekið og til ýmis konar starfsemi á Ásbrú, sem er vaxandi og fjölþætt og til atvinnulífs, bæði hér á Suðurnesjum og alls staðar annars staðar um landið. Þannig við erum með frjálsari hendur til framtíðar. Orkan varð ekki til við þennan dóm, en forsendur okkar fyrir því að virkja og selja bötnuðu.“

-Þær forsendur eru meðal annars þær að það hafa komið ný fyrirtæki á undanförnum árum, meðal annars gagnaver og fleiri, fleiri aðilar sem í rauninni eru að greiða hærra verð heldur en álverið hefði nokkurn tíma gert.

„Orkuverð til iðnaðar á Íslandi hefur verið á uppleið og í raun og veru er það orðið þannig að það er orðið fýsilegra að selja orku eins og hjá okkur til stærri notenda, iðnfyrirtækja og þess háttar starfsemi heldur en til heimila. Þeir borga hærra verð fyrir orku. Þannig í því samhengi, hvort sem fólk er nú sammála mér eða ekki, má segja að orkuverð til heimila er bara eiginlega of lágt. Það er að segja hvað varðar það að það eru aðrir sem eru til í að borga hærra verð.“

-En af því að þú nefnir það, þetta er svona hluti af þeim áhyggjum sem almenningur á Suðurnesjum, sem átti hitaveituna á sínum tíma, þegar þessu var skipt upp og selt og þá myndi allt verð á þessum nauðsynjum okkar fara upp úr öllu valdi. Hverju svarar þú því?
„Það hefði bara alls ekki gerst. Eftir þessar breytingar á eignarhaldi og uppskiptingu, þá hefur til dæmis heitavatns framleiðsla hér í Svartsengi verið stóraukin til þess að mæta aukinni eftirspurn. Verulega fjárfrekar framkvæmdir sem var lagst í til þess að auka framleiðslugetuna á heitu vatni til þess að það væri alltaf til nóg. Það er skylda okkar að mæta þessum þörfum. Raforkuna seljum við áfram á samkeppnishæfu verði, í samkeppni við aðra á markaðnum. Þannig að þessar áhyggjur, þær hafa algjörlega að engu orðið.“

-Þið hafið komið að ýmsu í samfélaginu. Þið hafið látið ykkur varða á annan hátt en bara í þessari venjulegu starfsemi.
„Já, töluvert mikið og í langan tíma. Við störfum mikið með félagasamtökum, íþróttafélögum, menningu, listum og því sem stundum er kallað „þeim sem minna mega sín“. Við látum af hendi rakna til fjölmargra aðila á hverju einasta ári og viljum gera það. Það er okkar hlutverk sem svona fyrirtækis í samfélaginu og gerum það með stolti. Núna í dag, þegar við fögnum einmitt flutningi skrifstofunnar hingað í Eldborg, þá ætlum við að færa gjöf til orgelssjóðs Keflavíkurkirkju. Svona svolítið á persónulegum nótum þá er þetta kirkjan sem ég var fermdur í og skírður í. Við gerum það með gleði í hjarta.“

Fjölmargir gestir heimsóttu HS Orku þegar fyrirtækið flutti í nýjar höfuðstöðvar í Svartsengi í Grindavík.

-Svona að lokum, bjartsýnn á framtíðina hjá HS Orku?
„Mjög. Það hefur tekist mjög vel til með þessa flutninga, þessa uppskiptingu, starfsmannabreytingar sem því hafa fylgt. Okkur hefur tekist vel að fá til okkar hæft starfsfólk. Það er gríðarlega mikilvægt. Hlutur kvenna í sérfræði- og stjórnunarstörfum í fyrirtækinu fer vaxandi og við erum í leiðinni aðeins að yngja upp. Orkuiðnaðurinn er svolítið þannig í eðlinu að fólk er lengi í þessum fyrirtækjum. Þannig að meðalaldur starfsmannanna hækkar. Þegar ég tók við sem forstjóri fyrir þremur árum þá var ég 52 ára og meðalaldur starfsmanna var 52 ár. Það var skuggalegt. Eitt af mínum markmiðum var að þetta myndi draga í sundur. Minn aldur hefur augljóslega aukist um þrjú ár. Ég er orðinn 55 ára. Meðalaldur starfsmanna lækkar og er kominn svolítið niður. Það er nauðsynlegur þáttur. Ekki þar fyrir að við hendum út fullorðnu fólki, síður en svo. Þeir sem eru hoknir af reynslu og geta kennt öðrum eru hér áfram en við ráðum til okkar ungt, vel menntað, skemmtilega hugsandi fólk sem sér tækifærin, fær hér góða þjálfun og vinnur stórkostleg störf.“

-En Albert Albertsson?
„Það fylgir þessu gríðarlega mikið stolt fyrir okkur. Albert er náttúrulega maðurinn á bak við það sem hér hefur verið gert í 40 ár. Hann er ekki lengur í neinum stjórnunarlegum ábyrgðum eða svona dægurþrasi og hann er hugmyndasmiður fyrirtækisins. Hann er titlaður hugmyndasmiður. Hann í raun og veru gerir það sem hann vill og svo biðjum við hann að hjálpa okkur með eitt og annað. Það er fullt að gera hjá honum, hann hættir aldrei og hann er bara glaður að vera áfram og hann nýtur þess einna best að vera með unga fólkinu og hjálpa því fram veginn, algjörlega ómissandi. Það er bara svoleiðis.“