Þrýstihópurinn „Stopp - hingað og ekki lengra!“ eru menn ársins 2016 á Suðurnesjum að mati Víkurfrétta. Hópurinn var stofnaður á samfélagsmiðlinum Facebook snemma í júlí 2016. Markmið hópsins var að þrýsta á að lokið verði við tvöföldun Reykjanesbrautar og úrbætur gerðar á umferðarmannvirkinu í kjölfar banaslyss sem varð á Reykjanesbraut við Hafnaveg. Í þrýstihópnum eru 16.000 einstaklingar sem lögðust á árarnar í baráttu fyrir betri Reykjanesbraut. 

Þingmenn og ráðherrar voru boðaðir til fundar þar sem krafan um úrbætur var lögð fram. Sveitarstjórnarfólk var virkjað og þungi lagður á að lokið yrði við tvöföldun Reykjanesbrautar milli Hafnarfjarðar og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Lögð var áhersla á að koma framkvæmdum inn á vegaáætlun og með samstöðu og styrk Suðurnesjamanna höfðust meðal annars í gegn þær vegabætur að ráðist verður í gerð tveggja hringtorga á Reykjanesbraut á árinu, ofan Reykjanesbæjar við Aðalgötu annars vegar og Þjóðbraut hins vegar. Þá verður í framhaldinu ráðist í að færa gatnamót Hafnavegar á Fitjum. Guðbergur Reynisson og Ísak Ernir Kristinsson, stofnendur hópsins, tóku í vikunni við verðlaununum fyrir hönd hópsins. Þeir segjast vera mjög hreyknir af viðurkenningunni en að hún sé til miklu stærri hóps.

Nokkur þúsund manns á fyrsta degi

Guðbergur Reynisson og Ísak Ernir Kristinsson höfðu í gegnum tíðina oft rætt að tvöfalda þyrfti Reykjanesbraut alla leið upp að flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli. „Við vorum búnir að vera að tuða á Facebook og víðar um hættuna af því að hafa veginn svona. Svo varð banaslys við Hafnaveg 7. júlí og við fengum algjört sjokk. Þá hringdi Ísak í mig og sagðist koma með mér í þetta,“ segir Guðbergur. Í framhaldinu ákváðu þeir að stofna hópinn Stopp - hingað og ekki lengra. Þegar þeir fóru að sofa um kvöldið var fjöldinn í hópnum orðinn 150. Þegar þeir vöknuðu næsta dag voru meðlimir hópsins orðnir fjögur þúsund og um hádegið um sex þúsund. Með hverri klukkustund sem leið fjölgaði í hópnum og í dag eru meðlimir um 16.000. Ísak segir þá hafa lagt áherslu á það í byrjun að fólk myndi gæta sín og vera málefnalegt í umræðum á Facebook-síðu hópsins. Tíu dögum eftir stofnun hópsins ákváðu þeir að búa til 14 manna framkvæmdahóp og fá til liðs við sig breiðan hóp fólks af Suðurnesjum. „Þetta vatt hratt upp og sig því við náðum strax eyrum fólks. Eitt leiddi af öðru og við stóðum fyrir margvíslegum uppákomum og hittum mikið af fólki í kringum þetta verkefni,“ segir Ísak.

Guðbergur og Ísak hafa báðir tekið þátt í pólitísku starfi en lögðu mikla áherslu á að allt starf hópsins yrði þverpólitískt. „Við höfum reynt eins og við getum að hafa þetta samfélagslegt verkefni, fyrst og fremst fyrir okkur hér á svæðinu. Það er stórhættulegt að beina umferð fólks hér í bænum upp á Reykjanesbraut þar sem tugir bíla keyra á hverri mínútu framhjá Aðalgötu,“ segir Guðbergur. Þeir segja málefni Reykjanesbrautar þó tengjast landinu öllu enda fari hver einasti Íslendingur einhvern tíma á ævinni í flugstöðina á Keflavíkurflugvelli. 

Þegar hópurinn var stofnaður var búið að ákveða að kjósa til Alþingis um haustið og var nefnt í umræðunni að hópurinn væri stofnaður í pólitískum tilgangi. Þeir segja það fjarri lagi enda hafi þeir átt í góðu samstarfi við fólk úr öllum flokkum.

Þegar hópurinn var stofnaður var lagt upp með að þrýsta á um aðgerðir til bráðabirgða og setja upp hringtorg við Aðalgötu og Þjóðbraut og að Hafnavegurinn yrði tengdur við hringtorg við Stekk. Markmið til lengri tíma var að tvöföldun Reykjanesbrautar yrði sett á samgönguáætlun. Bæði markmiðin náðust og verða hafnar framkvæmdir við hringtorgin á þessu ári. Á næsta ári verður svo byrjað á framkvæmdum við Hafnaveg. „Það er stefnuyfirlýsing að Alþingi vilji tvöfalda þennan vegkafla en framkvæmdina á eftir að fjármagna og koma framar í röðina. Hér á landi er fullt af brýnum samgönguúrbótum sem þarf að fara í. Okkur finnst að Reykjanesbrautin eigi að vera framar í röðinni en hún er. Málefnið snertir okkur og því þurfum við að halda áfram að berja á því,“ segir Ísak.
 

Skilti voru tekin niður

Eftir að framkvæmdahópurinn var stofnaður komu ýmsar hugmyndir upp. Árið 2000 var sams konar hópur stofnaður til að knýja á um tvöföldun Reykjanesbrautar. Þá var Reykjanesbrautinni lokað í mótmælaskyni til að vekja athygli á málefninu. Ísak segir það þó ekki hafa komið til greina nú. „Við ákváðum að gera þetta með ráðamönnum og þingmönnum og frekar hjálpa þeim en að þeir færu að setja málið ofan í skúffu.“

Hópurinn lét útbúa skilti sem komið var upp á Reykjanesbraut. Á skiltunum voru ökumenn varaðir við því að þessi kafli vegarins væri hættulegur. Skiltin voru fljótlega fjarlægð af starfsfólki Vegagerðarinnar. „Við fórum að hugsa málið rökrétt eftir þetta. Sumir vildu fara í meiri vígaherferðir en við hugsuðum með okkur að við gætum alveg hringt í þingmenn og fengið þá að borðinu. Við settum upp fund í Duus-húsum og þangað komu forsætisráðherra, iðnaðar- og viðskiptaráðherra og allir tóku vel í þessi mál. Ólöf Nordal, ráðherra samgöngumála, var með okkur alveg frá byrjun. Við vorum ekki með frekju og börðum í borðið, heldur sýndum fram á hversu hættulegur vegurinn er.“ Þeir segja samstöðu fólks með úrbótum á Reykjanesbraut hafa verið gríðarlega og skipt sköpum. „Þegar við hér á Suðurnesjum stöndum saman og róum í sömu átt þá gengur okkur ótrúlega vel,“ segir Ísak. Alveg sama hvert þeir hringdu þá var þeim vel tekið. Ísak nefnir að hópurinn hafi fundað með ráðherrum og öllum þingmönnum í kjördæminu, Vegamálastjóra, Umhverfis- og samgöngunefnd, bæjarstjórnum á Suðurnesjum, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Samtökum atvinnurekenda á Suðurnesjum og allt hafði þetta áhrif.
 

Fengu skapandi fólk til liðs við sig

Líkt og áður sagði var stofnaður 14 manna framkvæmdahópur og segir Ísak mikinn kraft búa í hópnum. „Þó að við Guðbergur séum hér í viðtali þá er það bara af því að við stofnuðum hópinn. Við erum bara vinnuhestar. Okkur vantaði með okkur skapandi fólk með þekkingu,“ segir Ísak og bendir á að þeir hafi verið heppnir að fá Margréti Sanders til liðs við sig. Hún hafi mótað hugmyndafræði og stefnu hópsins. Margrét er vel þekkt á Suðurnesjum fyrir margvísleg störf en hún er m.a. formaður Samtaka verslunar- og þjónustu. Þá hafi Marta Jónsdóttir, lögfræðingur, einnig reynst hópnum gríðarlega vel. „Hún hefur unnið í samgönguráðuneytinu og þekkir vel til stjórnsýslunnar.“ Með þeim var líka öflugur hópur sem útbjó myndbönd um málstaðinn. Í myndböndunum sögðu fórnarlömb bílslysa á Reykjanesbraut frá reynslu sinni.

Ekkert banaslys vegna árekstrar á tvöföldum kafla

Næstu skref framkvæmdahópsins verða að þrýsta á um að tvöföldun Reykjanesbrautar verði framar í forgangsröðinni hjá stjórnvöldum. „Við erum bara rétt að byrja,“ segir Guðbergur. Nú er staðan varðandi hringtorgin tvö sem komin eru á áætlun sú að verið er að leita að aðila til að hanna þau. Hluti Reykjanesbrautar er tvöfaldur en eftir er að ljúka við tvöföldun á fjögurra kílómetra kafla frá Fitjum að flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli. Ísak bendir á að á tvöfalda kaflanum hafi aðeins orðið eitt banaslys sem varð með þeim hætti að ökumaður missti meðvitund. „Fjöldi ferðamanna eykst ár frá ári og þeir fara allir þessa fjóra kílómetra. Við höfum ekki farið í það að fá Isavia með okkur en kannski eigum við það eftir. Verkefnið er hluti af því hvernig best er að koma farþegum til og frá flugstöðinni og því er málefnið mjög mikilvægt fyrir Isavia. Við þurfum að fá sem flesta með okkur í lið til að koma málinu framar í forgangsröðina.“

Suðurnesjafólk ársins 1990 til 2016

 
1990 - Dagbjartur Einarsson
1991 - Hjörtur Magni Jóhannsson
1992 - Guðmundur Rúnar Hallgrímsson
1993 - Guðjón Stefánsson
1994 - Júlíus Jónsson
1995 - Þorsteinn Erlingsson
1996 - Logi Þormóðsson
1997 - Steinþór Jónsson
1998 - Aðalheiður Héðinsdóttir
1999 - Sigfús Ingvason
2000 - Bláa lónið / Rúnar Júlíusson / Íþróttafélagið Nes
2001 - Freyja Siguðardóttir / Norðuróp / Fræðasetrið í Sandgerði
2002 - Guðmundur Jens Knútsson
2003 - Áhöfnin á Happasæl KE fyrir björgunarafrek
2004 - Tómas J. Knútsson
2005 - Guðmundur Kristinn Jónsson / Krístin Kristjánsdóttir
2006 - Hjörleifur Már Jóhannsson / Bergþóra Ólöf Björnsdóttir
2007 - Erlingur Jónsson
2008 - Sigurður Wíum Árnason
2009 - Jóhann Rúnar Kristjánsson
2010 - Axel Jónsson
2011 - Guðmundur Stefán Gunnarsson
2012 - Nanna Bryndís Hilmarsdóttir / Brynjar Leifsson
2013 - Klemenz Sæmundsson
2014 - Fida Abu Libdeh
2015 - Sigvaldi Lárusson
2016 - Stopp hópurinn - hingað og ekki lengra

Þau skipuðu framkvæmdahópinn

 

Sérstakur framkvæmdahópur Stopp hópsins var skipaður síðastliðið sumar. Hann skipuðu:
Atli Már Gylfason, Páll Orri Pálsson, Teitur Örlygsson, Margrét Sanders, Örvar Kristjánsson, Sólborg Guðbrandsdóttir, Guðbjörg Sigurðardóttir, Leifur A. Ísaksson, Andri Þór Ólafsson, Kristján Jóhannsson, Marta Jónsdóttir, Ísak Ernir Kristinsson og Guðbergur Reynisson.

Fjögur frækin úr Stopp-hópnum með ritstjóra VF, Guðbergur Reynisson, Margrét Sanders, Marta Jónsdóttir, Páll Ketilsson og Ísak Ernir Kristinsson. VF-mynd/hilmarbragi.