Áratugur er liðinn síðan flutningaskipið Wilson Muuga strandaði í Hvalsnesfjöru við Sandgerði. Strandið átti sér stað seint um nótt þann 19. desember 2006. Fjórtán manna áhöfn var á flutningaskipinu. Í aðdraganda björgunaraðgerða fórst bátsmaður af léttabáti frá danska varðskipinu Triton.

Flutningaskipið Wilson Muuga stímdi beint til lands á fullri ferð án þess að áhöfnina grunaði hvað framundan væri. Þetta kom fram í sjóprófum sem fram fóru í Héraðsdómi Reykjaness vegna strandsins. Kom í ljós að bæði sjálfsstýring skipsins og svokallaður gírókompás biluðu. Gírókompásinn sýndi stefnu í hásuður þótt skipið hefði í raun hrakist af leið vegna hliðarvinds. Í sjóprófunum kom fram að gert hefði verið við gírókompásinn í byrjun desember vegna bilunar. Yfirstýrimaður skipsins, sem var við stjórnvölinn þegar skipið strandaði, vissi hins vegar ekki af viðgerðinni.
 

Beiðni um dráttarbát barst frá Wilson Muuga seint um nótt. Í fyrstu var ekki vitað hvar skipið væri strandað en björgunarskip voru send út bæði frá Sandgerði og Grindavík. Skipið fannst svo langt uppi í fjöru við Hvalsneskirkju. Viðbragðsaðilar settu upp aðstöðu við Hvalsneskirkju en þaðan sást vel yfir strandstaðinn.

Danska varðskipið Triton heyrði hjálparbeiðnina frá Wilson Muuga og bauð fram aðstoð sína. Var léttabátur sjósettur frá skipinu með átta mönnum. Mjög þung alda var úti fyrir Sandgerði, ölduhæðin margir metrar og aðstæður mjög erfiðar. Léttabátnum hvolfdi í brimgarðinum ekki langt frá strandstað. Við þetta slys breyttist atburðarásin. Bátsmennirnir voru hætt komnir í brimsköflunum þegar bát þeirra hvofldi. Mannskapurinn var mjög vel þjálfaður og höfðu þeir náð að krækja sig saman þegar áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar fann þá. Einn þeirra drukknaði en gat hafði komið á björgunarbúning hans en hinum var bjargað með ævintýralegum hætti úr öldum sem voru á hæð við þriggja hæða hús og vann þyrlusveit Landshelgisgæslunnar þar mikið afrek.

Allar björgunarsveitir á Suðurnesjum höfðu á þessum tímapunkti verið kallaðar út og þá var óskað eftir aðstoð björgunarsveita af höfuðborgarsvæðinu með mesta forgangi. Hluti björgunarliðsins vann að aðgerðum við strandstað Wilson Muuga á meðan aðrir tóku þátt í leit að danska sjóliðanum.

Samskiptin við skipstjóra Wilson Muuga gengu erfiðlega framan af. Hann vildi ekki láta bjarga áhöfninni frá borði en björgunarsveitir höfðu frá því í birtingu unnið að því að koma línu um borð í skipið. Einnig voru þyrlur Landhelgisgæslunnar tiltækar til að hífa áhöfnina í land. Skipstjórinn vildi hins vegar bara fá dráttarbát til að draga skipið á flot og halda ferðinni til Rússlands áfram. Hann gerði sér enga grein fyrir aðstæðum og hversu langt upp í fjöruna skipið var komið. Skipbrotsmenn voru þó fluttir í land þegar líða tók á daginn og síðdegis þann 19. desember hafði öll áhöfnin verið flutt í land með þyrlum Landhelgisgæslunnar.

Þegar Wilson Muuga strandaði aðfaranótt 19. desember 2006 voru aðstæður mjög slæmar á strandstað, vaxandi straumur, áhlaðandi og mikill vindur. Spáð var áframhaldandi roki næstu daga. Um borð í skipinu voru 145 tonn af svartolíu og 33 tonn af annarri olíu. Var í upphafi óttast að olía úr skipinu gæti komist út í umhverfið og valdið mengunarslysi og var strax hafist handa við að gera ráðstafanir til að fjarlægja olíuna úr skipinu. Tókust þær aðgerðir giftusamlega og lítil olía komst út í umhverfið og olli hverfandi skaða.

Sólarhring eftir strandið töldu menn litlar líkur á að hægt yrði að bjarga Wilson Muuga af strandstað. Gunnar Stefánsson hjá Landsbjörgu sagði í samtali við Víkurfréttir sólarhring eftir strandið að það stórsæi á botni skipsins eftir að hafa lamist til í óveðrinu sólarhringinn á undan. Talsverður leki var kominn í skipið, í lestar og víðar. Slæm veðurspá var yfirvofandi og því ljóst að erfitt yrði að koma fyrir búnaði til að dæla sjó úr skipinu, sagði í frétt daginn eftir strandið.

Þá var búið að leggja veg að strandstað strax daginn eftir strand skipsins til að auðvelda aðkomu að fjörunni en um 400 metrar voru frá fjörukambi að skipinu. Gunnar Stefánsson sagði á vef Víkurfrétta líklegt að að nýtt Víkartindsmál væri í uppsiglingu. Skipið snérist mikið á strandstaðnum fyrsta sólarhringinn. Þá voru allir botntankar skipsins rifnir og hætta var á að skipið liðaðist í sundur en sprungur voru komnar í plötumót.

Björgunarsveitarfólk á Suðurnesjum var kallað út á aðfangadag 2006 til að leita að olíublautum fugli nærri strandstað en vart hafði orðið við olíuleka frá skipinu.

„Bæjarráð Sandgerðisbæjar telur algjört forgangsatriði að olíu úr Wilson Muuga verði hið fyrsta komið á land til að koma í veg fyrir umhverfisslys á fjörum og við strendur bæjarfélagsins af völdum olíumengunar. Bæjarráð vill hins vegar taka fram að gæta þarf fyllsta öryggis á strandstað og að starfsmönnum verði ekki stefnt í voða í ljósi þess að nú þegar hefur einn látist við björgunarstörf á svæðinu. Bæjarráð hefur því fullan skilning á að taka þurfi mið af aðstæðum,“ segir í ályktun sem samþykkt var á aðfangadag 2006.

„Bæjarráð gerir því ekki athugasemd við þá ákvörðun sérfræðinga á vegum Umhverfisstofnunar að vinna á strandstað verði takmörkuð á meðan veður og straumar ógna öryggi starfsmanna á þeirra vegum.
Bæjarráð telur hins vegar rétt að leggja áherslu á þá skoðun bæjaryfirvalda að mikilvægt er að vinna við dælingu olíunnar á land hefjist um leið og aðstæður til þess skapast og treystir sérfræðingum Umhverfisstofnunar og þeim sem á hennar vegum starfa til að tryggja að svo verði. Af gefnu tilefni er einnig rétt að taka það fram að bæjaryfirvöld eða starfsmenn Sandgerðisbæjar taka engan þátt í ákvarðanatöku eða framkvæmd aðgerða á strandstað. Umhverfisráð bæjarfélagsins, bæjarráð og bæjarstarfsmenn eru til reiðu og munu bregðast við ef og þegar eftir því verður leitað undir stjórn Umhverfisstofnunar og í samráði við Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja,“ sagði jafnframt í ályktuninni.

Talsvert var tekist á um Wilson Muuga í ársbyrjun 2007. Bæjaryfirvöld í Sandgerði hugðust leita réttar síns fyrir dómstólum ef eigendur Wilsons Muuga færu ekki að vinna í því að fjarlægja skipið úr Hvalsnesfjöru þar sem það hafði setið í mánuð. Vildu bæjaryfirvöld meina að útgerð skipsins væri að tefja brottflutning skipsins.

 

Starfsmenn Náttúrufræðistofu Reykjaness fundu talsverða olíumengun í fjörunni við Wilson Muuga síðdegis þann 19. febrúar 2007 þegar þeir gengu fjörur á Hvalsnesi. „Hugsanlegt er að þar sé að finna örsök þeirrar olíumengunar sem hundruð sjófugla lentu í nú um helgina og sést hafa meðfram ströndum við Garðskaga. Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja hefur verið gert viðvart og munu fulltrúar þess fara á staðinn í fyrramálið og meta aðstæður. Að sögn starfsmanns hjá Náttúrufræðistofu virðist nokkur olía hafa borist upp á land og sest í tjarnir ofan við fjörukambinn. Starfsmaður Náttúrufræðistofu Reykjaness treysti sér þó ekki til að meta umfang mengunarinnar, það yrði að metast af þeim aðilum sem til þess hefðu sérþekkingu,“ sagði í frétt á vef Víkurfrétta.

Fjölmennur hópur á vegum Bláa hersins var kallaður til. Hann hreinsaði meðal annars olíublautt þang úr Gerðakotstjörn. Voru um 25 tonn af olíublautu þangi flutt á brott.

Í mars 2007 tilkynnti umhverfisráðherra að samkomulag hefði náðst við eigendur skipsins um að fjarlægja það af strandstað. Þau voru svo fölskvalaus fagnaðarlætin í fjörunni við strandstað Wilson Muuga þann 17. apríl 2007 þegar skipið náðist á flot um klukkan hálf sex síðdegis. „Enda voru menn búnir að leggja nótt við nýtan dag síðustu sólarhringana við undirbúning björgunarinnar“.

Það var síðan í byrjun júní sem skipið hélt af landi brott áleiðis til Líbanon. Þar átti að gera skipið upp. Skipið fékk nafnið Karim.